
Ég hef gaman af því að prjóna. Held að það sé ekki hægt að neita því og sumir telja kannski að ég sé prjónaóð.
Nema hvað, reglulega (lesist daglega) fyllist ég þörf fyrir að prjóna eitthvað ákveðið og í þessari viku var það Frozen peysa á yngstu barnabörnin mín og þær einu sem nenna að vera í prjónaflíkum (ekki alveg satt en næstum því).
Þá var að leita eftir uppskrift eða hugmynd. Fann eina frábæra og keypti en var þegar til kom ekki alveg eins og ég vildi.
Það þýddi bara eitt – teikna nýtt mynstur. Það vildi svo vel til að ég átti garn í réttum lit. Ótrúlegt en satt:). Ég gerði prjónafestuprufu og komst að því að prjónfestan var nákvæmlega sú sama og í léttlopa, 18 l og 24 umferðir fyrir 10×10 sm.
Það gerði málið einfaldara.
Maður er snöggur að prjóna litlar peysur og þrem dögum eftir að hugmyndin vaknaði var ég komin með fyrri peysuna nær kláraða (sjá mynd). Ég lék mér að því að nota garðaprjón í „snjóinn“ og varð svo að setja hjörtu í mynstrið, milli snjókornanna. Myndin sýnir hvernig peysan er nú. Set inn fleiri upplýsingar og myndir þegar hún er tilbúin. Uppskriftin verður á https://disaknit.is/ þegar hún er tilbúin.