
Eyjabúar eru um margt aðeins öðruvísi en fólk sem lifir á meginlandi. Hafa þurft um aldir að treysta á eigin bjargir, oft við erfiðar aðstæður.
Við þekkjum þetta vel Íslendingar og mögulega er þetta ein af ástæðunum fyrir því að okkur finnst ekki margt ómögulegt. Við bara vöðum í verkið og framkvæmum það og skiljum ekkert í því að stærri þjóðir spyrja: „Hvernig gat þessi örþjóð sem rétt myndi fylla sæmilega stóran bæ eða litla borg á meginlandinu framkvæmt þetta stórvirki?
Þá yppta eyjabúar öxlum og hugsa með sér: „Nú, við bara gerðum það“. Og ekki meira um það.
Hjaltlandseyjar eru þekktar fyrir ullina sína svipað og Íslendingar en eru þó á undan okkur í vinnslu og sölu. Þeir hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir verðmæti hennar og hafa fundið leiðir til að markaðssetja hana. Það er ekki bara hvíti liturinn sem selst heldur allir litirnir.
Gerðar hafa verið fjölmargar uppskriftir og skrifaðar bækur sem kynna ullina og eyjarnar vel og svo er árlega Shetland wool week sem er sótt af fólki hvaðanæva að úr heiminum. Þetta er rétt að byrja hér með Ullarvikunni á Suðurland og prjónahátíð á Blönduósi (örugglega fleiri slíkar í gangi) en á langt í land enn. Ferðamálayfirvöld og önnur yfirvöld ættu að leggja miklu meiri áherslu á ferðir á slíkar hátíðir og til að kynna ullina og vinnslu hennar hér (og bændur að fá mun meira fyrir hana en nú er).
Ferð til Hjaltlandseyja er á dagskránni og komin ansi ofarlega:). Áhuginn minnkaði ekki þegar ég rakst á þessa útgáfu https://www.shopkdd.com/books þar sem hægt er að finna bækur um allskonar tengt eyjunum, uppskriftir, gönguleiðir, mat og ég veit ekki hvað. Nú er vandi að velja, hvaða bók á að kaupa fyrst og lesa.
Húrra fyrir Hjalteyingum – áfram Ísland! Ullin okkar er einstök og á allt það besta skilið. Góða hirðingu á meðan hún er enn á kindinni, faglega meðferð eftir rúningu og góða markaðskynningu þegar hún er orðin að garni eða flíkum.
Og án þess að taka einn hönnuð fram yfir annan, þá er hér mynd af peysunni Gjöf eftir Védís Jónsdóttur sem hannaði hana í tilefni af Nordic Craft Week 2022 fyrir Heimilisiðnaðarfélag Íslands og gaf heiminum (uppskriftin er semsagt ókeypis).