
Það kemur ýmislegt upp í ferðalögum. Stundum þarf að gera við sokk eða annað plagg, stundum vantar allt í einu hlýja sokka eða vettlinga og svo getur það gerst að skortur á fiðrildum segi til sín. Þegar litlar dúkkur eru með í för verður stundum vart við teppa- eða sængurleysi fyrir þær.
Lítil hnáta horfði ósköp fallega á ömmu sína og sagði: „Amma, hvað kanntu að prjóna?
„Eitt og annað“ svaraði amman sem hafði auðvitað tekið með sér lager af garni (og náð í aðeins meira í ferðalaginu), prjónum og heklunálum.
„Geturðu prjónað svona kanínuhund úr þessu? spurði sú litla og náði sér í hnykil af gylltu heklugarni úr lagernum.
„Hann verður ekki sérlega notalegur“ svaraði amman. „En hvað langar þig til að ég prjóni?
„Ég veit ekki en eitthvað sem þú kannt,“ sagði hún ákveðin.
„Ja, ég get heklað fiðrildi…
„JÁ, úr þessu? spurði hún og hélt gyllta bandinu á lofti.

Það varð úr og til urðu tvö fiðrildi, annað bara úr gulli en hitt marglitt. Daginn eftir varð ljóst að blessuð dúkkan átti ekkert teppi. Enn var farið í lagerinn og dregnir fram nokkrir litir af garni. Enginn einn fann náð fyrir augum ungfrúrinnar litlu en þegar ljóst var að ekki var til bleikur eða fjólublár þá varð úr að nota alla hina. Og gullið! Það varð að vera með.
Amman náði sér í heklunál og byrjaði að hekla einfalt mynstur. Fljótlega vaknaði sú hugsun að sennilega væri best að gera einskonar poka, þannig myndi barninu verða hlýtt og minni líkur til að yfirbreiðslan tapaðist.
Innan skamms var kominn hinn besti poki og ekki að sjá annað en dúkkubarnið væri ánægt með hann:).