Fyrir ansi mörgum árum síðan keypti ég gönguskó. Fékk leiðbeiningar og hjálp frá vinkonu minni sem gekk ansi miklu meira en ég á fjöll og út um allt.
Skórnir voru ágætir en mér fannst alltaf vesen að fara í þá og notaði þá svo sem ekkert hrikalega mikið.
20 árum seinna fannst mér rétt að endurnýja og fór í fína útivistarbúð þar sem elskulegur sölumaður sýndi mér allskonar skó og á endanum sættumst við á eina sem kostuðu hálfan handlegg og fjórðung úr fótlegg.
Þeir meiddu mig samt alltaf á einum ákveðnum stað á fætinum og á endanum gafst ég upp og ákvað að kaupa aðra. Gaf barnabarni sem er ekki með hobbitafætur eins og amman, skóna og lagði leið mína í útivistarbúðir bæjarins. Fyrst búð sem dóttir mín hrósaði mjög eftir samtal við samstarfsfólk. Þar mátaði ég skó sem jú, vissulega pössuðu, meiddu mig ekkert og voru meira að segja í glaðlegum litum. Ungur maður með flottan maskara og og enn flottara naglalakk snerist kringum mig þó fullt væri af fólki. Það var góður andi í búðinni og greinilegt að þeim sem þar voru leið vel.
Ég gat samt ekki bara keypt þá án þess að skoða víðar (þúsundkallar vaxa ekki á trjánum í mínum garði) og fór í næstu. Þar var sama tegund af skóm, aðeins dýrari og minna úrval. Afgreiðslukonan mátti eiginlega ekki vera að því að tala við mig, hefur líklega fundið á sér að ég væri ólíklegur kaupandi að tugþúsundkróna skóm til gönguferða. Mér þótti það leiðinlegt og sérstaklega hvað hún var snúin í tilsvörum og gekk á endanum út án þess að máta neitt.
Fór í þriðju búðina. Þar var gott úrval og önnur tegund af skóm, sem líka hafði verið mælt með við mig. En eiginlega enginn til að aðstoða við valið. Eða ræða við um kosti og galla. Ég var við það að fara út þegar ung stúlka kom og spurði hvað ég vildi og hvort hún gæti aðstoðað. Hún fann til skó en þeir pössuðu ekki eins vel og þeir fyrstu.
Ég fór heim að hugsa og yfir nóttina varð það augljóst að fyrsta búðin og skórnir þar yrðu fyrir valinu. Á slaginu 11 (eftir að hafa ráðfært mig við sérfræðing, aðra vinkonu sem hleypur fjöll jafnlétt og ég geng út í bíl…) var ég mætt fyrir utan búðina. Gekk föstum og ákveðnum skrefum inn, fann skóna og um leið var mætt ung kona sem var tilbúin í að aðstoða. Ásamt unga manninum og fleira fólki sem var við afgreiðslu. Búðin fylltist af fólki á nokkrum mínútum en þetta hafðist og ég fór heim með skóna, eldfjallaskóna (eldfjallaskór eru skór sem duga til að ganga upp að eldfjalli).
Nei, ég fæ ekkert fyrir að sýna þessa mynd:)
„Eldfjallaskórnir“ komnir í notkun. Þeir duga líka á Leggjabrjót:)