Ég hef gengi tvisar upp að gosi á nokkrum dögum. Það má teljast nokkuð gott, ekki síst vegna þess að hnéð á mér er andsetið og kílóin mættu vera talsvert færri. Kannski fækkar þeim eitthvað ef ég geng nógu oft:). Nýju skórnir stóðu sig með prýði og ég kvíði því ekki hætishót að ganga Kattatjarnarleið og hvað það var annað sem ég ætlaði að fara.
En aftur að gosinu. Það er eiginlega alveg stórmerkilegt hvað það hefur breyst á nokkrum dögum. Heilu dalirnir að fyllast af hrauni og gönguleiðir í hættu þess vegna.
Þvílíkt sjónarspil sem þetta gos er. Á nokkurra mínútna fresti gubbar það upp nokkur hundruð rúmmetrum af fljótandi hrauni sem rennur af stað í kapphlaupi við ískalt loftið sem kælir það eins hratt og það getur. Hraunið finnur sér leið undir kaldasta hlutann og ýtist þannig áfram, meter eftir meter.
Það er eitthvað heillandi við að horfa á hráa orkuna og fegurðina sem gosið sýnir. Enda stöðugur straumur fólks að því, gangandi, akandi og fljúgandi. Allra þjóða kvikindi standa agndofa frammi fyrir eldtungunum og aðdáunarhrópin heyrast á mörgum tungumálum samtímis.
Maður verður samt einhvern veginn svo agnarlítill í samanburðinum…