„Jæja, best að ljúka við jólasöguna og senda jólakortin“ hugsa ég í svefnrofunum og renni yfir nöfnin viðtakenda í huganum. Það er mánudagur og þá er ég í fríi frá vinnu, að minnsta kosti í orði kveðnu. Reyndar tveir netfundir og sjálfsagt nokkur símtöl, en ég fer ekki á vinnustaðinn. Þá er maður í fríi er það ekki?
Ég fer á fætur, tek nokkrar mínútur í að „skvera mig“, eins og sagt var í gamla daga. Ætla ekkert að fara nánar út í hvað það þýðir en náttfötin eru á sínum stað, utan á mér:).
Ég sest við tölvuna með þann góða ásetning að búa til jólasögu sem hjá mér felst í að fara yfir árið, taka út helstu atburði, finna mynd sem lýsir atburðinum og lýsa því sem gerðist.
Fyrst þarf að skoða fésbók, sjá hvað aðrir hafa gert frá í gær, renna yfir fréttamiðla og athuga hvort eitthvað í póstinum kallar á athygli eða aðgerðir. Neibb. Engar sérstakar fréttir umfram yfirvofandi heimsendi, stríð, fátækt, græðgi ríkasta fólksins og sumra fyrirtækja og svo framvegis. Fésbókin full af flottum bútasaumi og prjóni og einstaka fregnum af vinum eða ættingjum. Þá er það búið og ég opna myndasafnið. Smelli á 2015 til að leita að mynd og…sé nokkrar myndir úr bók. Þetta er Elizabeth Zimmerman prjónagoðið mitt og vestið hennar, „Pi is a square“.
Meira þarf ekki til. Ég opna vafrann aftur og leita að Elísabetu og fæ upp nokkrar bloggsíður. The rest is history…