
Af og til koma skilaboð til ömmunnar um að hekla/prjóna eitthvað. Í vikunni var það húfa. Amman fékk senda smámynd af nokkrum stúlkum með húfur. Satt best að segja hélt amman að þetta væri misskilningur og að svona húfur ættu heima á höfði smákrakka en ekki táninga.
En nei, táningurinn sagði þetta í tísku og sendi fleiri myndir því til sanninda. Amman lagði því af stað í ferðalag um óravíddir internetsins og varð að viðurkenna að ansi margar unglingsstúlkur virtust sammála þeirri íslensku.
Þá hófst leit að einhverju sem gæti flokkast undir uppskrift en ekkert slíkt fannst. Bara ótal video, snapchat og instagrammyndir af ungum stúlkum að hekla eða máta slíkar húfur.
Amman ákvað að leggja bara af stað og náði sér í heklunál og band í réttum litum (afar mikilvægur þáttur). Fitjaði upp 80 LL og heklaði eina umferð af stuðlum. Mátaði svo og þetta virtist passa nokkuð (aðeins of stórt samt) svo amman lét slag standa og hélt áfram.
Þegar nógu langt hafði verið heklað var mynd send á unglinginn sem samþykkti gjörðina. Þá þurfti að vinna smá lokafrágang og að því loknu ganga frá spottum. Hér er svo afraksturinn sem reyndar á eftir að máta á nýjan eiganda (önnur mynd að því loknu) til að geta búið til alvöru uppskrift.