Ég á góða vinkonu sem stundar hestamennsku af miklum móð. Hún sinnir hestunum allt árið og á sumrin er hún leiðsögumaður í hestaferðum norðan heiða.
Eins og gefur að skilja er dálítið rætt um hesta. Mér finnst þeir fallegir og elskulegir og ekki versnaði álitið þegar barnabörnin fóru eitt af öðru að hitta hana til að kynnast hestunum.
Eitt þeirra var allan síðasta vetur á „námskeiði“ hjá henni og auðvitað var amman á vappi til að kanna hvort barnið vantaði ekki eitthvað. Til dæmis peysu (amman er með prjónadellu) eða hlýja vettlinga.

Jú, hún gat hugsað sér að fá hestapeysu en ekki úr lopa því hann stingur. Amman sótti hestamynstur á netið og breytti eftir atvikum og út kom þessi peysa.
Næst voru það vettlingar. Hestavettlingar.
Fyrir þá sem ekki vita, eru hestavettlingar svipaðir og sjómannsvettlingarnir í gamla daga, þ.e. með tveim þumlum nema þessir eru með „þumal“ fyrir litla fingur. Þannig er hægt að halda taumnum og láta renna gegnum bil milli litla fingurs og baugfingurs.
Best er að nota ull og þæfa, þannig verða vettlingarnir hlýrri og nær vatnsheldir.
Amman hafði nýlega prjónað þæfða vettlinga á litlu krílin en treysti sér ekki alveg í þetta og leitaði til góðrar konu sem hefur mikla reynslu af því að prjóna þæfða vettlinga. Hún vippaði þeim upp á svipstundu og allir voru glaðir.
Verkefnið hélt þó áfram að malla í kollinum á ömmunni sem leitaði upp lesefni og hugmyndir um þæfða vettlinga. Búin var til skrá í tölvunni sem hét „þæfðir vettlingar“ þar sem efninu var safnað. Ekkert var prjónað strax þó.
Svo gerðist það að þessi sama amma missti alla möguleika til prjóns (löng saga en hún innifelur hjólaferð á rafskútu, brotinn úlnlið og brotinn þumalfingur) og við tóku erfiðar vikur. Þar sem ekki var hægt að prjóna, var tíminn notaður í að lesa og skipuleggja, velta upp hugmyndum að prjóni þegar það yrði hægt og svo framvegis.
Smátt og smátt varð til hugmynd. Að búa einfaldlega til uppskrift fyrir hestavettlinga úr plötulopa eða annarri ull sem hentaði. Til dæmis Dvergabandi frá Uppspuna, sem prjónast svipað og tvöfaldur plötulopi.
Nú er svo komið að búið er að skrifa og pæla og aðeins eftir að prufuprjóna. Það bíður einhverja daga þar til amman hefur öðlast betri mátt í brotnu hendinni…og af því amman er nýbúin að búa til reikning á Ravelry, himnaríki handavinnufólks, þá verður hún birt þar þegar að kemur.
Bjartari dagar framundan (og þá er ekki verið að vísa í veðrið á höfuðborgarsvæðinu! Það er borin von)