
Daglega er ótrúlega miklu magni af mat hent í ruslið. Maturinn kemur frá framleiðendum, fyrirtækjum, verslunum og heimilum svo eitthvað sé nefnt.
(mynd frá Getty images)
Oft er matur sem lendir í ruslinu ætur – það á væntanlega helst við um mat sem fyrirtæki henda, síður það sem kemur frá heimilum. Síðasti söludagur og síðasti neysludagur eru tvær ólíkar dagsetningar og maður þarf alltaf að muna að framleiðendur vilja hafa vaðið fyrir neðan sig og oft er maturinn ætur í dálítinn tíma eftir síðasta söludag/síðasta neysludag. Þá er gott að nota skynfærin, lykt, sjón, áferð.
Eigi að síður fer ansi mikið frá heimilum í ruslið og spurningin er, hvernig best er að komast hjá því að henda mat.
Gott er að muna eftir frískápunum sem eru um alla borg – matur sem fer í þá fer hratt.
Önnur leið er að kaupa afar varlega inn en með því er ekki hægt algerlega að koma í veg fyrir að einhverju sé hent. En það minnkar vissulega mikið.
Svo er hægt að merkja svæði, t.d. í ísskápnum, þar sem settur er matur sem er að nálgast það að verða óætur. Maður vill nefnilega gleyma því sem maður ekki sér og ísskápar og skápar eru góðir í að leyna hlutum:).
Þegar að því kemur að henda mat – gæti verið gott fyrir einhverja að halda andartak á stykkinu og hugsa um það. Hugsa um hvað það kostaði, hvað átti að gera við það og hvernig hægt er að komast hjá því að lenda aftur í sömu aðstæðum. Svona í áttina að því sem Marie Kondo gerir við föt og hluti þegar hún er fengin til að aðstoða fólk við að minnka dótið og óreiðuna.
Í þessari grein https://www.bbc.com/future/article/20240715-the-simple-japanese-method-for-a-tidier-and-less-wasteful-fridge (sem hluti af færslunni er fenginn að láni hjá) er þetta rætt í meiri smáatriðum.
En auðvitað kunnum við þetta flest og hagsýna húsmóðirin (hvers kyns sem hún er), kann að fara með peninga og hendir helst engu. Enda er skítt að vinna og vinna bara til að fleygja því sem vinnan borgaði fyrir. Þá er nú betra að sleppa hvorutveggja…