
Að öllu jöfnu ferðast ég ódýrt og nota mest tvo jafnfljóta eða almenningssamgöngur þar sem ég er hverju sinni. Í nýliðinni ferð til Lissabon var ég á ferð með tveimur unglingum og af því við komum til landsins seint að kvöldi (eða snemma nætur), og ég þekkti ekki til hafandi aldrei komið til Lissabon, varð leigubíll fyrir valinu.
Ég var auðvitað búin að lesa mörg komment um leigubílstjóra sem reyndu að svindla með því að aka lengri leið en þurfti, sleppa því að nota mæli og ég veit ekki hvað. Það var því með hálfum huga að ég gekk að fremsta bílnum og rétti honum heimilisfangið.
Auðvitað reyndist þetta vænsti maður og ekki bara þægilegur og viðræðugóður (kunni nóg í ensku til að geta spjallað – sem var gott því ekki kann ég orð í portúgölsku) heldur endaði ökuferðin á því að hann rétti mér nafnspjald og sagði: „Hér er símanúmerið mitt á Whatsapp og ef ykkur vantar far eitthvert á meðan þið eruð hér, skaltu bara hringja eða senda skilaboð“.
Þar fyrir utan kostaði ökuferðin svipað og strætóferð í Reykjavík sem gerði þessa reynslu ekkert verri.
Næsta dag vildu unglingarnir fara á ströndina og auðvitað sendi ég á bílstjórann skilaboð og hann kom að vörmu spori (eða allt að því). Ég spurði hvað kostaði ferð ströndina og hversu langt væri þangað. „Það tekur um 25 mínútur“ sagði bílstjórinn og bætti við að væntanlega myndi ferðin kosta heilar 12-15 evrur.
Ég þóttist eiga fyrir því og við héldum á ströndina. Þegar þangað var komið sagðist bílstjórinn góði alveg geta beðið eftir okkur en við gætum líka hringt í hann eða sent skilaboð þegar við vildum fara heim. Engin fyrirhöfn að aka 25 mín til að sækja okkur…
Við reyndar þáðum ekki þetta góða boð en tókum annan bíl heim. Verðið svipað svo þetta virtist vera gangverð í bænum.
Nú vorum við komnar á bragðið og þegar fjórði ferðalangurinn bættist við og það kom í ljós að unglingarnir voru miklu þreyttari en við sem eldri vorum og vildu gjarnan bara sitja í bíl frekar en ganga í 29-32 stiga hitanum, þá notuðum við leigubíla nokkuð óspart. Sennilega hef ég tekið fleiri leigubíla þessa einu viku en alla ævi fram að þessu!
Ævintýraferð í leigubíl
Síðasta daginn var spáð ansi miklum hita, 33 gráðum eða hærra. Þá var spurning hvernig best væri fyrir Íslendinga sem þola ekki mikið meira en 20 gráður áður en þeir byrja að bráðna, að eyða deginum.
Ströndin kom sterk inn en amman í hópnum var dáldið stressuð yfir hitanum og talaði um hitaslag og skaðbruna og ég veit ekki hvað. Sagðist vera til í ströndina en ekki fyrr en aðeins drægi úr hitanum.

Hins vegar hafði komið til tals að skoða Sintra, svæði sem er í tæplega klukkustundarfjarlægð frá Lissabon. Þarna eru kastalar, hallir og gríðarflottar strendur, enda er svæðið hið ríkasta í Portúgal og þó víðar væri leitað. Hægt er að bóka skoðunarferðir með rútu eða fara á eigin vegum.
Unglingarnir voru ekkert að flýta sér á fætur og allar hefðbundnar skoðunarferðir löngu hafnar þegar það gerðist. Þá voru góð ráð dýr (reyndar ódýr í þessu tilfelli). Skilaboð voru send til bílstjórans góða og spurt hvað það myndi kosta að fá hann til að aka okkur til Sintra, stoppa í McDonalds á leiðinni þangað svo svöngu unglingarnir lifðu ferðina af, stoppa á strönd á heimleiððinni og koma okkur svo á hótelið um það bil 6 tímum frá upphafi ferðar.
Ja, svaraði hann. Venjulega myndi kosta 40 evrur til Sintra (ath. þetta er amk jafnlangt ef ekki lengra en til Keflavíkur frá Reykjavík). Svona löng ferð kostar örugglega 120 evrur en ef það er allt í lagi get ég komið kl. 1 og sótt ykkur.
Jahá, 6 klst ferðalag með 4 farþega átti sem sagt að kosta heilar 19000 krónur! Sem var heldur lægra heldur en við hefðum þurft að borga fyrir bílaleigubíl einn dag.

Við enduðum á því að aka eins og kortið sýnir, frá Lissabon til Sintra, með viðkomu á nokkrum stöðum, þaðan eftir ströndinni til Cascais og svo áfram með ströndinni til Carcavelos þar sem sjóbaðið átti sér stað í dásemdarveðri (29C). Heimkoma var ekki fyrr en um kl. 8 svo ferðalagið tók um 7 tíma.
Og allt þetta kostaði…120 evrur (bílferðin, fræðslan um það sem fyrir augu bar og notalegheit.