Hvað eiga bananar og sokkar sameiginlegt? Ekki mikið, svona við fyrstu sýn en skoðum málið betur.
Þegar maður prjónar sokka, þá eru þeir í raun eins konar túba með smá útvexti fyrir hælinn. Bestu sokkarnir eru auðvitað þeir sem passa best á fótinn og internetið, tölvur, símar, bókasöfn og heimili prjónara eru full af allskonar sokkauppskriftum, einföldum og flóknum.
Einhver skapandi einstaklingur (eða bara latur), ákvað að kanna hvort ekki væri hægt að minnka þetta hælavesen allt saman og prjóna bara túbu. En ekki bara sléttprjónaða, heldur þess eðlis að hæll myndaðiðst af sjálfu sér – eða þannig.
Verandi með dálitla prjónadellu og í augnablikinu sokkadellu, gerðist það einn daginn að skjárinn sýndi mér þessa stórfurðulegu sokka sem litu út eins og banani. Og ég varð að prófa.
Ekki þurfti eiginlega uppskrift, enda er þetta bara túba. Og til að prjóna hana finnur maður bara góða tölu fyrir uppfitjun (það má nota einhverja uppskrift sem viðkomandi veit að passar og fitja upp skv. henni). Meira þarf ekki.

Svo prjónar maður stroff, eins langt eða stutt og maður vill og prjónar síðan helminginn af lykkjunum 2 slétta og 2 brugðnar og hinn helminginn 3-5 umferðir sléttar og 3-5 umf. brugðnar. Í sokknum á myndinni eru gerðar 3 umf. sléttar og 3 brugðnar.
Þegar hæfilegri lengd er náð (bara miða við einhvern sokk sem passar á viðkomandi) þá er tekið úr. Ég nota hefðbundið þessa úrtöku: Byrja stroffmegin. Taka eina L óprjónaða, prjóna næstu og draga óprjónuðu lykkjuna yfir. Prjóna 2 sl. og 2 br. þar til 2 L eru eftir, prjóna þær saman.
Gera eins á hinni hliðinni.
Prjóna eina umferð.
Endurtaka.
Eftir það prjóna úrtöku í hverri umferð þar til 6-8 L eru eftir, slíta frá og ganga frá endanum.
Þar með er kominn sokkur!


