Í paradísinni Elliðaárdal er margt að finna. Skemmtilegar gönguleiðir, Elliðaá, rjóður og oftast nær slatta af fólki. Ofarlega í dalnum hvílir lítil íbúðabyggð og enn ofar Árbæjarsafn sem geymir gömul hús og magnaða sögu.
Í Ártúnsbrekkunni sem liggur meðfram dalnum er Höfuðstöðin, lítið og krúttlegt kaffi- og menningarhús þar sem á laugardögum koma saman börn og foreldrar til að föndra, aðra daga allskonar annað sem er skemmtilegt. Í lengjunni er líka rakarastofa, og tattústofa.
Fólk á mínum aldri þekkir húsin sem kartöflugeymslur en ennþá fyrr voru þetta sprengjugeymslur.

https://reykjavik.is/frettir/sprengjugeymsn-sem-vard-ad-menningarmidstod
Upplýsingar um söguna
Stundum eru prjónakvöld í Höfuðstöðinni og þá streyma þangað prjónarar á öllum aldri. Setjast á harða stóla og sæti sem líta út eins og grjót í skrautlegum litum. Það er hægt að fá mat og drykk og fyrr en varir er salurinn eins og fuglabjarg. Hamingjusamir prjónarar í hverju sæti, deila hugmyndum, fréttum og bara hverju sem er.

En hvernig er að prjóna í Höfuðstöðinni?
Jú, það fer auðvitað eftir aldri, þroska og skrokknum á manni. Það er að mínu mati ekki sérstaklega þægilegt að sitja á „grjótinu“ (ekkert bak) og prjóna og stólarnir ekki mjög þægilegir. En félagsskapurinn og það að vera í hóp, gerir að maður situr lengur en skrokkurinn vill og spjallar frá sér allt vit.
Hugmyndin er góð og húsnæðið bjart og skemmtilegt (mætti vera hlýrra inni). Litagleðin ræður völdum og bara það eitt dugar til að maður kemst í betra skap.
Það dugar þó ekki til að Höfuðstöðin lendi mjög ofarlega á blaði í þessu vali. En ég kem samt þegar svona viðburðir eru – af því það er svo skemmtilegt!
