Á fallegum haustdegi um miðjan september var prjónarinn staddur á lúxushótelinu Rangá, sem eins og nafnið gefur til kynna, er í Rangárvallasýslu.
Dvölin hófst eftir hádegi á laugardegi og fyrst var prófað að prjóna innivið.

Margir góðir staðir fundust enda þægilegir stólar víða í húsinu. Þessi skemmtilegi körfustóll er vel staðsettur og þótti upplagt að prófa hann. Hann var sæmilegur en vantaði stuðning við bakið. Það hefði auðvitað verið hægt að fara innar og krossleggja fæturna en það tókst ekki alveg.

Eftir dásemdarpottaferð að loknum morgunverði á sunnudagsmorgni þar sem sólin skein eins og enginn væri morgundagurinn, var prófað að setjast á bekk fyrir framan herbergið. Útsýnið skemmdi ekkert fyrir og bekkurinn reyndist bara vel. Í það minnsta voru nokkrar umferðir prjónaðar og raunar var dálítið erfitt að kveðja bekkinn þegar að heimferð kom. En allt gaman tekur enda um síðir og víst er að enginn þarf að fara óprjónaður af hótel Rangá.