Það er skemmtilegt að tala við og fylgjast með samræðum barna og unglinga. Eitt kvöldið var fjölskylduboð og eins og gengur var margt rætt.
Á tímabili voru þrískiptar samræður og forvitna amman reyndi að fylgjast með öllu í einu – og tókst misjafnlega.
Nema hvað, allt í einu heyrði amman að farið var að tala um uppáhaldsbarnið og allar jafnræðistilfinningarnar spruttu fram eins og lækur á vorkvöldi.
„Ég er uppáhaldskrakkinn“ heyrðist í einum unglingnum og annar gall við: „Nei, ég er það, ég lendi ekki eins oft í vandræðum og þú!
Amman hlustaði og brosti í kampinn en þá heyrðist lítil rödd: „En ég er passwordkrakkinn“. Hin þögnuðu um leið og allir litu á þann sem talað hafði og ekki laust við að maður finndi virðingarstigið hækka smá.
Kollurinn fór á flug – hvað var passwordkrakki? Hvernig verður maður passwordkrakki? Og hvernig hafði þessi vitneskja orðið til hjá krökkunum?
Amman notfærði sér þessa stuttu þögn og spurði: „Hvað er passwordkrakki?
Barnabörnin litu öll á ömmuna með svip sem sagði: „Amma gamla“, sem er ekkert sanngjarnt því amman þessi er ágætlega að sér í mörgu og telur sig fylgjast bara þokkalega með!
„Sko amma, passwordkrakkinn er krakkinn sem foreldrið notar nafn á í lykilorð á símanum eða tölvunni. Það er sko krakkinn sem er líklega í mestu uppáhaldi“.
Amman gleypti þetta ekki hrátt. „En ef það er bara þægilegasta nafnið til að nota? Eina nafnið með engum séríslenskum stöfum? Það þarf ekkert að vera uppáhaldsbarn fyrir því?
Það er skemmst frá því að segja að mótmælin sannfærðu engan. Og mögulega verður einhverjum lykilorðum skipt út eða bara breytt í passkey með andlitsgreiningu ef það hefur ekki þegar verið gert.