Það er dálítið gaman að kynnast því hvernig þeir sem eiga marga peninga lifa. Það fékk ég að prófa nýlega þegar ég fór á fund í San Diego.
Lúxushótel var bæði fundarstaður og gististaður og ekki skemmdi veðrið þessa daga. Alltaf 20-23 gráður og sólskin að mestu.
Það er svo sannarlega hægt að láta fara vel um sig á svona stað. Þjónustufólk á þönum, allt gert til þess að manni líði sem best og að allar óskir séu uppfylltar. Sundlaug og líkamsrækt á staðnum (lét reyndar prjónana duga sem líkamsrækt en synti dálítið líka), fallegir og vel snyrtir garðar allt í kring um hótelið og þó ég léti vera að kaupa mér mat á hótelinu (aðeins dýrari en nánösin ég tími) þá fengum við að sjálfsögðu mat og drykki í tengslum við fundinn. Það var ótrúlega góður matur og vel fram settur.
Ég prófaði að prjóna snemma morguns við einn af fjölmörgum steinapottum með eldi, eitthvað sem logaði meira og minna alla daga þó ég áttaði mig ekki á tilganginum (vel heitt fyrir Íslending en kannski ekki aðra). Það var mjög „kósí“ og ég fékk fjölmargar spurningar um það hvað ég væri að prjóna eða hvað ég væri að gera frá þeim sem ekki þekktu prjónaskap.

Þegar sólin kom uppfyrir þakið og fór að skína í einhverjum garðanna, settist ég í stól (þessi var þægilegur) og prjónaði þar. Myndin er reyndar tekin síðasta daginn, eftir að fundinum lauk.
Það stóð mikið til daginn sem við fórum, brúðkaup á amerískan máta. Dagana áður hafði hótelið smám saman fyllst af ungum konum sem allar voru eins klæddar, líklega brúðarmeyjar. Búið var að raða upp stólum í einum garðanna og loka aðeins af. Þetta var dálítið eins og að taka þátt í kvikmynd:).
Ég get ekki ímyndað mér kostnaðinn en bílaflotinn fyrir framan hótelið hefði mögulega geta greitt skuldir íslenska ríkisins…
Dvölin var í alla staði dásamleg og ef ég einhvern tíma eignast fullt af peningum (frekar ólíklegt en maður getur látið sig dreyma) þá fer ég líklega aftur á eitthvert svona hótel á frekar heitum stað…og prjóna allt sem mér dettur í hug!