Ferðalög til annarra landa kalla á að maður þarf að komast á flugvöll og svo heim frá honum aftur þegar til baka er komið.
Yfirleitt er þetta lítið mál. Á flugvellinum eru skilti og leiðbeiningar um það hvernig best er að komast á áfangastað – með lest, með strætó, með rútu eða leigubíl. Stundum er tekið fram hvað hinar mismunandi leiðir kosta en allt á þetta sameiginlegt að það er auðvelt að komast að viðkomandi stoppistöð.
Nema á Íslandi. Hér, á hjara veraldar, í roki og rigningu, er eitt skilti við útganginn. Þar er kort af staðsetningu þeirra sem bjóða upp á ferðir og þeim er raðað þannig að ódýrasti kosturinn er lengst í burtu og neðst á myndinni. Enda nota íbúar mest einkabílinn.

Kortið góða er ekki einu sinni að finna á veraldarvefnum, bara þessa mynd sem kemur ef maður setur inn Keflavíkurflugvöllur strætó eða Keflavik airport bus, í leitarglugga. Ekki gríðarskýr og fyrir þann sem ekki þekkir til er pottþétt erfitt að finna hvar stoppistöðin er.
Fjölmargir hafa lýst óánægju sinni með þetta, m.a. hér.
Þess er líka gætt að ódýrasti kosturinn er aðeins í boði takmarkaðan tíma svo auðveldara sé að selja dýrari leiðirnar.
Stokkhólmur
Ég var að koma frá Stokkhólmi og þar er hægt að taka flugvallarútu/strætó á nokkrum strætóstoppiðstöðvum. Vel merkt, hægt að kaupa miða gegnum netið eða app og ferðin kostar 129 sænskar krónur eða 1740 krónur frá Karolinska til Arlanda. Stoppað beint fyrir framan bygginguna og hægt að velja um brottfarasal.
Sama leið í lest kostar frá 700-4000 kr. eftir því hvenær farið er. Leigubíll kostar hins vegar um 9000 krónur (minna hjá bílum eins og Uber).
London
Í London er hægt að taka neðanjarðarlest úr miðborginni fyrir 2200 krónur á meðan leigubíll kostar 9-12 þúsund. Rúta kostar um 2200 krónur og tekur frekar langan tíma.
Reykjavík
Flugrúta kostar um 4000 krónur frá Keflavík til Reykjavíkur.
Strætó (sem lagt er langt í burtu og er ekki sýnilegur – hvar er vilji stjórnvalda til að auka almenningssamgöngur?) kostar 2400 krónur.
Leigubíll frá Keflavík til Reykjavíkur kostar 20.000 krónur og fyrir hvert aukastopp bætast við 4000 krónur. Á nóttunni og á hátíðisdögum bætast við 35%.
Sjálfsagt má kenna mannfæð að einhverju leyti um það hversu dýrt er að komast milli staða í Reykjavík en 2 milljónir ferðamanna hljóta að hafa eitthvað að segja? Viljaleysi þeirra til sem stýra strætó til að gera kerfið notendavænt er ótrúlegt og í engu samræmi við yfirlýsingar um að stórauka eigi almenningssamgöngur.
Á meðan hægt er að reka fleiri en eitt rútufyrirtæki með ferðir til og frá Keflavík, hlýtur að vera grundvöllur fyrir því að bæta strætóferðir og setja upp strætóstöð á sama stað og rúturnar fá að vera.