Brauð er oft geymt í plastpokum, stundum í brauðkössum eða skúffum. Í framhaldi af saumum á vaxbornum klútum, fannst mér rétt að prófa að gera vaxborinn brauðpoka. Í hann notaði ég efni úr sængurveri sem hafði lokið sinni þjónustu með sóma, reif efnið svo það væri þráðrétt, saumaði hliðarnir með skyrtusaumi (fyrst rangan saman, sauma mjóan saum og svo réttan saman og sauma aftur saum sem hylur hinn fyrri). Það gegnir tvennu hlutverki; að þétta saumana og þeir eru fallegri. Svo braut ég niður að ofan og gerði fald. Þar inní setti ég bendlaband (takk Ásdís Finnsdóttir fyrir böndin). Eftir saumaskapinn brædi ég býflugnavax, setti dálítið af jojobaolíu útí og penslaði á pokann. Til að jafna setti ég hann sléttann á bökunarpappír og inn í ofn smástund. Það vildi nefnilega svo vel til að ég var eimmitt að baka brauð þegar saumaskapurinn hófst…merkilegar þessar tilviljanir!
Útkoman er fín. Pokinn heldur brauðinu góðu – komnir tveir sólarhringar og það er enn mjúkt að innan en stökkt að utan.