Fallegir handprjónaðir sokkar úr góðu garni eru augnayndi og dásamlegir á fæti. Margir prjónarar eru meistarar í sokkaprjóni og framleiða hvert parið á fætur öðru og sýna stundum afraksturinn í stórum og litlum hópum á samfélagsmiðlum.
Aðrir, minna megnugir horfa með andakt og óska þess að vera í þessum flotta hópi en komast kannski aldrei alla leið.
Ástæðurnar geta verið margar en hjá þessum prjónara eru það hælarnir.
Í barnaskóla lærði maður að gera hæl og hefur haldið sig við hann með misjöfnum árangri síðan. Einhvern veginn verða hælarnir mínir aldrei nógu fallegir og þó sokkarnir séu nothæfir, þá nálgast þeir aldrei sokka meistaranna.
Í sumar, þegar veðrið var ekki eins dásamlegt og einn veðurfræðingur hafði látið í veðri vaka í vor og ég eyddi löngum tímum fyrir frama tölvuskjá (úlnliðsbrot hafði dáldið að segja líka), notaði ég tímann til að ferðast um sokkanýlendurnar.
Leitaði uppi hæla af öllum stærðum og gerðum, vistaði þá áhugaverðustu og prófaði allt mögulegt.
Mig langaði sem sagt að finna hæla sem væru þægilegir í prjóni, aulaheldir og gætu virkað vel til að fylla á lager barnabarnanna fyir haustið.
Á endanum datt ég ofaná hæla sem voru alls ekki hælar.
Þeir sem hafa prjónað spíralsokka vita þetta auðvitað en þó ég þekkti þá vel, þurfti ég þetta ferðalag.
Einfaldasta sokkauppskrift í heimi – engir hælstallar – virkar á hvaða stærð sem er og eru fínt byrjendaverkefni líka því þeir eru svo einfaldir.
Maður bara fitjar upp þann lykkjufjölda sem hentar, prjónar stroff í hæfilega margar umferðir, svo slétt eða mynstur eða hvað sem er og svo tekur við “hællinn”. Hann er gerður þannig að helmingurinn af lykkjunum er prjónaður 2 sl og 2 br og hinn helmingurinn einfaldlega í sama og afgangurinn (slétt eða mynstur). Gott er að nota hálfur til einu númeri minni prjóna í þennan hluta.
Nú eru prjónaðir nokkrir sentimetrar svona. Kosturinn við þessa aðferð er að “hællinn” getur færst til eftir stærð, ef ekki kemur gat (sem reyndar er ekki erfitt að laga þegar þessi aðferð er notuð). Eftir að þeim kafla lýkur er prjónað áfram slétt eða mynstur eftir atvikum og svo tekið úr á hefðbundinn máta.
Hér að neðan eru viðmiðunartöflur sem sýna skóstærð, prjónfestu og fjölda lykkja í uppfitjun fyrir margar stærðir sokka. Hafa ber í huga að aldur og skóstærð er ekki alltaf sú sama og þar með sokkastærð.