“Hello,” var sagt lágt við hliðina á mér þar sem ég sat á flugvellinum í Düsseldorf að bíða eftir flugi heim til Íslands. Ég hafði setið um stund og skrifað á litlu ferðatölvuna mína, á íslensku auðvitað, og nokkru fyrr hafði sest við hlið mér japönsk kona á miðjum aldri, hluti af stærri hóp.
Það var ljóst að hún áhuga á því sem ég var að gera og horfði stíft á skjáinn. Mér þótti þetta heldur óþægilegt en huggaði mig við að litlar líkur væru til þess að hún skildi íslensku.
“Do you speak English?” kom svo eftir að ég hafði tekið undir kveðjuna hógværu.
Jú, ég varð að viðurkenna það og þá var eins og losaði væri um stíflu. Konan vildi vita allt um mig og áhuginn minnkaði ekkert þegar hún komst að því að ekki aðeins væri ég á leið til Íslands, heldur byggi ég þar líka! Og í viðbót við þetta væri ég mamma, amma og blaðamaður sem gat unnið hvar sem var í heiminum.
Sú japanska var á leið til Íslands í 8 daga hópferð og átti í leiðinni að stoppa í 2 daga af þeim á Grænlandi sem hún var nú samt ekki alveg viss um að væri mjög spennandi staður og vildi fá álit mitt á því. Ég var treg til að segja neitt um landið, þekki það ekkert og hef lítinn áhuga á því en sagði þó að margir vildu heimsækja það og hefðu gaman af.
Svo fór hún að spyrja um það hvort hótelið sem hún ætlaði að gista á í Reykjavík væri ekki alveg örugglega í “shopping area” eða í “center of town” sem henni hafði verið lofað. Hún hafði nefnilega komið til landsins örstutt tveimur árum fyrr og þótt mikið til þess koma hvað margar verslanir voru í bænum. Einkum hafði henni þótt Kringlan flott. Nú sá hún sig í anda að geta labbað út af hótelinu og farið að versla í bítið á morgnana..
Því miður, varð ég að segja henni. Hótel Loftleiðir væri ekki alveg í miðbænum en það gengu strætisvagnar og fremur auðvelt að komast í bæinn með þeim. Það dró heldur úr brosinu við þessar fréttir og um stund hafði ég það á tilfinningunni að öll ábyrgð þess að hún fékk ekki hótel í miðbænum væri á minni könnu.
En hún tók gleði sína fljótt aftur og fór að segja mér frá öllum stöðunum sem átti að heimsækja á örfáum dögum. Bláa lónið var efst á lista, Snæfellsnesið og hvalaskoðun kom næst, Þingvellir, Gullfoss og Geysir og svo Borgarnes sem var sett á annan dag en Snæfellsnesið af einhverjum undarlegum ástæðum að mér fannst. Heldur virtist lítill tími til verslunarferða með þessu móti en konan, sem jafnóðum og hún fékk einhverjar upplýsingar þýddi þær hratt á japönsku fyrir hópinn, taldi þetta hið besta mál og hlakkaði mikið til.
Henni var forvitni á að vita hvort ég væri líka húsmóðir með vinnunni. Ég þóttist vera það að einhverju leyti, vildi ekki koma upp um leti mína á þeim vettvangi svona í útlöndum. Svo komu spurningar um eiginmann og börn, aldur og verkefni. Hvað ég ynni lengi, hvort ég ynni heima eða á skrifstofu, hvenær á ævinni ég þyrfti að hætta að vinna og um leið komu þær upplýsingar að japanir hættu almennt 55 ára að vinna en lífeyrismál og umhugsun aldraðra væri illa sinnt af ríkinu og kerfið almennt lélegt.
Hún var ákaflega hrifin af því að ég gæti unnið hvar sem væri og fannst enn merkilegra að ég finndi tíma til að bútasaums og prjóns og að sinna ýmsum verkum öðrum meðfram því að vinna úti.
Sjálfsagt sinnir hún sínum heimilisverkum af mun meiri skyldurækni og dugnaði en ég og tekur í það heldur lengri tíma…