
Ég er svo heppin að búa í hverfi sem var byggt að mestu milli áranna 1950 og 1960. Húsin eru hæfilega stór og hægt að sjá lengra frá sér en inn um næsta glugga. Það er lúxus sem seint verður ofmetinn.
Þó húsin séu flest lítil fjölbýlishús, að minnsta kosti við mína götu, þá fylgja þeim garðar. Garðar sem eigendur frá upphafi hafa hugsað um og gert að sínum.
Margir tóku þátt í trjáræktarbyltingunni sem fól í sér að trjám var plantað í flesta garða. Fólk fékk litla sæta græðlinga af birkirunnum, reynitrjám, öspum og ýmsum grenitegundum og setti niður.
Líklega hefur fæstum dottið í hug að þessi pínulitlu tré yrðu að risum þegar fram liðu stundir og myndu gnæfa yfir tveggja hæða húsin og skyggja á garða og nágrenni.
Í næsta garði við minn hefur þessi fallegi risi horft yfir til mín, sent mér skæðadrífu af nálum í öll tækifæri og skyggt á sólina á góðviðrisdögum. Hann hefur líka glatt augun því þetta er sérlega fallegt tré.
Á stundum hef ég haft áhyggjur af því, einkum þegar vindurinn að austan blæs sem mest en væntanlega eru ræturnar djúpar og vel fastar.
Svo kom að því að eigendur hússins vildu getað ræktað eitthvað fleira í garðinum en þetta eina tré og fannst væntanlega betra að geta notið sólarinnar. Því var ákveðið að risinn myndi víkja og sú aðgerð átti sér stað í vikunni.
Ég verð að viðurkenna að mínar tilfinningar voru blendnar. Víst hafði ég stundum pirrast yfir nálunum sem þurfti að sópa daglega og stundum hafði sólin falið sig óþarflega lengi bak við tréð sem varpaði skugga á pallinn minn en tréð var líka vinur minn. Vinur sem ég hafði horft á í nær 20 ár.
Ég ákvað að fylgjast með því þegar farið væri í að taka tréð og myndaði aðgerðirnar. Afraksturinn er hér að neðan.




