
Pinterest er óendanleg uppspretta skemmtilegra uppskrifta og hugmynda. Tíminn flýgur á meðan maður flettir gegnum hvert undrið af öðru og óskar þess að hafa allan tímann í veröldinni til að prjóna, hekla og föndra þetta allt.
Undanfarið hef ég sé eitthvað sem líkist hálfkláruðum götóttum peysum. Eiginlega ermum með smáparti af bol. Mér datt helst í hug að einhver árhifavaldurinn hefði ekki nennt að klára verkið og tekið af sér mynd sem svo fór á flug.
En auðvitað er þetta, eins og svo oft áður, bara merki um hversu frjór hugur unga fólksins er og óbundin af hefðum.
Nema hvað, handavinnufíkillinn þurfti auðvitað að prófa og byrjaði á að lesa allt mögulegt, uppskriftir og blogg og Instagram og ég veit ekki hvað. Enda alltaf gott að vera vel undirbúinn.
Svo var að kanna garnbirgðirnar (það vill svo vel ti að þær eru mun betri en nokkurn tíma lagerinn í ísskápnum, enda aldrei neitt almennilegt til að borða hér!). Jú, þarna leyndist garn sem hægt var að nota í tilraun…og heklarinn hófst handa.
Spurði reyndar í millitíðinni unglinginn (kvenkyns) í fjölskyldunni hvort þetta væri eitthvað sniðugt.
Jú, hún hélt það væri nothæft og hvort ég gæti kannski gert þrjú gatastykki, í mismunandi litum og sídd?
Ég sá ekkert að því og hófst handa. Auðvitað þurfti ég að gera eigin uppskrift ef uppskrift skyldi kalla. Prófa mig áfram með mismunandi stór göt, mismunandi grófleika heklunála og allt annað sem fylgir því að gera flík.
Öll fyrri þekking og viðmið fóru út um gluggann. Ekki átti að vera eiginleg hálsmál, Ermarnar víðari neðst en efst þar sem þær áttu að vera svo þröngar að rétt væri hægt að komast í götin. Síddin ýmist 2-3 umferðir á bol eða lengra eftir atvikum. Ekkert stroff, ekkert auka. Bara göt.
Nú þykist ég kunna þetta sæmilega og hugmyndirnar streyma fram. Allskonar gatamynstur, prjón (götótt, i.e. með risaprjónum), síðar ermar, stuttar ermar, prjónað/heklað frá einni ermi til annarrar þvert yfir og svo framvegis.
Uppskriftirnar eða aðferðirnar koma…um leið og ég nenni að stoppa nógu lengi að hekla og prjóna til að skrifa en hér er eitt sýnishorn (myndin).