
Sumum líður best með prjóna í höndum og eiga erfitt með að vera lengi á sama stað án þess að taka þá upp (eru ekki allir með prjónadót í töskunni hvert sem farið er?). Stundum er heitt og dáldið sveitt að prjóna. Stundum er dáldið kalt og erfitt að höndla prjónana en stundum er það bara fullkomið.
Og þá er spurningin – hvar er best að prjóna? (fyrir utan eigin yndisstað (happy place) sem væntanlega er heima hjá manni).
Þar sem höfundur þessa bloggs er talsvert á ferð og flugi, var tekin skyndiákvörðun um að búa til framhaldssöguna um það hvernig reynist að prjón á hverjum stað. Mögulega rata einhverjar garnbúðir inn í textann:)..
Lissabon
Undanfarna daga hef ég dvalið í Portúgal, nánar til tekið í Lissabon. Veðrið hefur verið, eins og búast má við í júlí og ágúst, frekar heitt, 28-32 gráður. Íslendingurinn hefur haldið sig inni við yfir heitasta tímann (stundum á ágætum bar á þaki hótelsins, þar sem hægt er að sitja í skugga og vindi).
Prjónadótið kom með og varð fyrir valinu peysa úr einhyrningaprumpi frá Dóttur Dyeworks. Skemmtilega marglitt garn sem með silkimóher verður dásamlega létt og skemmtilegt í flík.

Fyrsta daginn var prjónað á þakbarnum og það gekk ágætlega. Það hefði gengið enn betur ef betri prjónastóll hefði verið á staðnum en því var ekki að heilsa.
Næsta dag prófaði ég garðinn við hlið hótelsins. Þar var notalegur bekkur með útsýni yfir grasflöt þar sem fjöldi barna og fullorðinna naut blíðunnar. Líka skemmtilegt útiveitingahús og góður félagsskapur sem ekki skemmdi fyrir.
Þriðja daginn fór ég snemma af stað í morgungönguferð. Einhverja garnbúðahugsanir gerðu vart við sig og í bríaríi opnaði ég google maps og skrifaði: Knitting shops near me.
Það virkaði svona ljómandi vel. Innan 500 metra fann ég þá fyrstu og örskammt frá henni aðra. Þetta var skemmtilegt og ekki verra að í þeirri seinni var greinilega að hefjast e.k. prjónakaffi þar sem nokkrar konur komu inn og settust við borð.
Potrúgalskan mín er nánast í mínus og enskan þeirra var næstum jafnlítil og íslenskukunnáttan. En, sameiginlegt áhugamál, bendingar og spurnarsvipur af og til kom okkur ansi langt.
Sem sagt, það er vel hægt að prjóna í Lissabon og þar eru ótrúlega margar garnbúðir (fann miklu fleiri á netinu) og margar með flott úrval af garni.