Ég hef dálítið gaman af bulli, bæði í orði og gerðum. Ekki síst í handverki, prjóni og bútasaumi.
Nema hvað. Í nóvember (stundum fyrr) fara að birtast myndir af frábæru jólahandverki af öllum stærðum og gerðum. Föndri, saumaskap, hekli og prjóni. Það koma myndir af fjölskyldum og jafnvel heilu vinnustöðunum í jólapeysum sem hafa verið prjónaðar mánuðina á undan. Nýjar uppskriftir birtast daglega og mig langar að gera þær allar en geri svo enga þeirra, enda letingi að eðlisfari.
Svo líður tíminn og allt í einu er kominn janúar og engin ástæða til að prjóna jólapeysu lengur (þó það væri auðvitað skynsamlegt að byrja þá fyrir næstu jól).
Þetta árið var ég enn ákveðnari en áður í að prjóna jólapeysu á mig. Ég fór að kaupa dokku hér og þar, safna í hana. Allt í einu var kominn september, svo október og jú, nóvember fylgdi á eftir hinum tveim. Enn var engin peysa á prjónunum (það er reyndar ekki rétt, það voru nokkrar peysur á prjónunum, bara ekki jóla) og nóvember var hálfnaður.

Ég hafði eins og áður skoðað Pinterst í tætlur, leitað að „skrítnum“ jólapeysum en enga fundið sem mig langaði nógu mikið til að gera til að byrja. Nóg var komið af allskonar garni og ég átti bæði silfur- og gullþræði til að prjóna með.
Smá hugmynd var að kvikna; frá mitti myndi ég gera nokkra þríhyrningslaga panela og setja saman svo peysan víkkaði út. Ég gat unnið með það og byrjaði. Þá var allt í einu komið að ferðalagi sem taka myndi rúmar tvær vikur.
Nú voru góð ráð dýr. Átti ég að skilja garnið eftir og treysta því að ég næði að prjóna peysu á nokkrum dögum eftir heimkomu? Ég var jú með tvö önnur verkefni með mér og annað þeirra jólagjöf sem þyrfti að klára.
Sveimhuginn ég ákvað að taka allt garnið með og þurfti þess vegna stærri tösku en ég hef ferðast með í áratugi!

Ég greip í að prjóna ermarnar í ferðinni, lauk við panelana og var alltaf með í huga að hafa þetta fjölbreytt, skrítið og marglitt. Það gekk vel.
Við heimkomuna þann 11.12., eftir 3 landa ferð, var svo eftir að prjóna búkinn, setja öll stykkin saman og ákveða frágang. Og jólapeysudagur í vinnunni ákveðinn þann 16.!
Ekki gátu framstykkin og bakstykkið verið eins samt svo sitthver liturinn og mismunandi garn fór í hvert stykki.
Ég endaði með að hekla stykkin saman og hekla svo hvítan kant meðfram peysunni.
Það var ekki um annað að ræða en spíta í lófana og halda áfram. Það tókst og jólapeysubullið var (svona nokkurn veginn) tilbúið þann 16. desember.
Þess ber að geta að eigandinn er bara hæstánægð með flíkina og mun halda áfram um ókomin ár að setja á hana meira skraut!


