
Það er stórkostlegt og um leið dálítið „scary“ að fylgjast með þróun gervigreindar.
Daglega spretta upp nýjar síður með leiðum til að skapa efni eða svara spurningum með gervigreind. Merkilegt nokk, þá hefur þessu meira og minna verið lýst í vísindaskáldsögum og þar er gjarnan varað við afleiðingum þess að gefa gervigreindinni of mikið vald.
En…okkur finnst þetta svo skemmtilegt að viðvörunarorðin fjúka út í veður og vind. Svo gerist það kannski allt í einu, eins og með svo margt annað að veruleikinn er sá sem varað var við. Stjórnin komin úr okkar höndum og til einhvers sem hefur ekki tilfinningar og sér okkur mannfólkið væntanlega bara sem sníkjudýr sem förum frekar illa með það sem okkur er þó kært, jörðina og annað mannfólk.
Það sama á raunar við um fleira. Í áratugi hefur verið varað við loftlagsbreytingum af mannavöldum. Leiðin væri að minnka ágang á jörðina, minnka eða sleppa mengandi iðnaði, finna aðrar leiðir til að hita/kæla/ferðast en með því að nota mengandi orkugjafa, læra að umgangast náttúruna með virðingu og svo framvegis.
Aftur var þetta svo gaman. Það að eignast hluti fyrir minni pening (plast út um allt) gerði að verkum að okkur fannst við ríkari. Það að eignast einnota hluti, geta bara hent hnífapörunum eftir notkun, gos í plastflöskum og ég veit ekki hvað, gerði að verkum að „allt efnahagslífið blómstraði“.
Ferðalög hvert sem er og hvar sem er, lífið ljúft og dásamlegt.
En á meðan safnaðist plast í sjóinn (sjórinn tekur lengi við), örplast er nú komið um alla jörð og í allar verur með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, mengunin eykst dag frá degi þrátt fyrir flottar yfirlýsingar ráðamanna sem fara á einkaþotum á fína fundi.
Fólkið og dýrin sem búa á svæðum sem aðrir hafa eyðilagt hefur það ekki eins gott. Langvinnir þurrkar, skógareldar, uppskerubrestur, fátækt og enn meiri fátækt eru beinar afleiðingar. Þá flýr fólk heimaslóðir og reynir að komast til betur megandi landa – sem svo kvarta undan því að þurfa að taka við slíkum fjölda flóttamanna.
Með öðrum orðum, við erum að keyra plánetuna í þrot.
Og lausnin? Auðvitað er hún sú að eyða zilljónum í að leita að annarri plánetu til að lifa á, ekki að nota peningana í að laga þessa. Það má nefnilega ekki hægja á hagkerfinu því þá gætu einhverjir tapað örfáum krónum af þeim milljörðum sem þeir eiga.
Það má ekki gerast.