Ég sit í íbúðinni minni og horfi í kring um mig á allt sem ég á. Mögulega ætti ég að vera að sinna þessu dóti öllu með afþurrkun, tiltekt, skipulagi og ég veit ekki hvað en einhvers staðar á þróunarleiðinni datt út nennan til að gera mikið af húsverkum. Reyndar held ég að mín hafi aldrei verið til staðar.
Það er svo margt skemmtilegra hægt að gera en þrífa og taka til.
En vandinn við að eiga dót er að maður þarf að sinna því. Í það minnsta flokka það og koma fyrir þannig að það vaði ekki um öll gólf, stóla, borð og önnur yfirborð.
Sumu, t.d. skrautdóti, þarf að þurrka af (það er reyndar orðið í lágmarki hjá mér), annað er í notkun og letinginn ég hef gaman af því að byrja á öllu mögulegu en ekki endilega að ljúka því með því að ganga frá.
Á svona stundum vaknar oft hugsunin: Hvað myndi ég taka með mér ef ég ætlaði að flytja til annars lands? Byrja upp á nýtt? Ef ég til dæmis gæti bara tekið sem svaraði einni ferðatösku?
Hér á árum áður hefði ég sagt myndir og myndaalbúm en undanfarin ár hef ég markvisst skannað inn pappírsmyndir og á þær nú í tölvutæku formi og þarf ekki nema tölvupláss (reyndar bara skýjapláss) fyrir þær. Hið sama gildir um alls kyns pappíra ef einhverjir eru.
Bækur? Jú, ég á gríðarstórt bókasafn um Reykjavík, söguna og svo handavinnu. Flestar myndi ég skilja eftir og kannski allar þó þær séu mér til ánægju og yndisauka. Bara treysta því að það verði net þar sem ég verð…
Maður getur allstaðar fengið mataráhöld og þarf svo sem bara disk, gaffal, hníf og skeið og svo fjölnotaglas eða könnu. Kaupir svo á nytjamarkaði annað sem mögulega þarf (merkilegt hvað maður kemst af með lítið samt).
Snyrtidótið samanstendur af sjampói og tannkremi svo ekki tekur það mikið pláss og skartgripirnir álíka.
Fötin mín? Ég verð seint ásökuð um að vera tískudrós og yngstu flíkurnar mínar eru handprjónaðar peysur. Yngsta keypta flíkin (fyrir utan gönguskó og strigaskó) er sennilega frá 2018 eða 2020 svo það eru lítil verðmæti í þeim og margar úr sér gegnar hvort sem er. Svo myndi ég sennilega reyna, ef hægt væri, að flytja eitthvert þangað sem veðrið er sæmilegt og maður þarf ekki mikið af fötum. Samt gott að vera með til skiptanna og eiga yfirhafnir fyrir ýmis veður, úlpu og jakka amk. Og skó.
Það er víst hægt að kaupa föt hér og þar í heiminum.
Hvað er þá eftir. Jú, það sem ég ætti erfitt með að skilja eftir er tölvudótið og handavinnan. Prjónar og heklunálar í það minnsta (þyrfti væntanlega að sortera eitthvað og velja úr – safnið er ansi stórt), garn (sama þar, velja það sem maður ekki getur skilið við – og mögulega kaupa í viðbót ef tekst að prjóna úr því sem til er).
Saumavélin og efnin eru of þung og fyrirferðarmikil en auðvitað má taka upp slow stitching (handaum). Í hann þarf ekki mikið og ég á það flest ef ekki allt.
Og þá er bara að flokka…og láta sig dreyma um minimaliskt líf í litlu þorpi eða bæ þar sem veðrið fer vel með mann og lífið krefst einskis nema kaffibolla og þess að hafa góðan félagsskap.