Reykjavík er borgin mín. Borgin sem ég hef búið í frá fæðingu, að stuttum tíma frátöldum. Hún er síbreytileg eins og borgir eru. Stundum kyrrlát og falleg – ef maður á leið um hana snemma morguns, einkum í dásamlegri vormorgunbirtu sem er engu lík. Eða á kyrrlát sumarkvöldi, sem kannski eru ekki svo mörg en því dýrmætari.
Það er margt vel gert í Reykjavík en sumt ekki eins gott. Að reisa risastórar blokkir og háhýsi allstaðar er eitt af því sem ekki er gott. Það myndar skugga og vindgil og þeir sem þar búa njóta lítillar birtu og sjaldan útsýnis. Við þurfum á birtu að halda og ef stórborgir eins og London og Kaupmannahöfn geta byggt þannig að fólk sér annað en beint inn í næstu íbúð og þar að auki gert ráð fyrir góðum opnum svæðum á milli, þá hljótum við að geta gert það líka.