Ég sá hann um leið og ég settist niður með kaffibollann og gulrótarkökuna sem hafði freistað mín í afgreiðsluborði kaffihússins. Kaffihúsið var staðsett á 5. hæð bókabúðarinnar Foyles í London, einum af uppáhaldsstöðum mínum í þeirri borg.
Allt í kring sat fólk á öllum aldri, flestir með bók eða bækur til að glugga í en sumir niðursokknir í tölvur eða síma. Þægilegur kliður barst um salinn á þessum rigningardegi og mér leið vel, svona heima-vel.
Ég heyrði að hann tók einhvern tali og leit út undan mér á hann þar sem hann sat einn við borð með hvítvínsglas. Hann var nær sköllóttur en það litla sem eftir var af hári var grátt. Andlitið dálítið kringluleitt (hann var dálítið þéttur) og skarpleg augun fólust bak við gleraugu. Fötin voru vönduð, jakkinn úr grænu ullarefni og hann var í skyrtu og vesti innanundir. Hann bar með sér að vera alveg laus við feimni eða minnimáttarkennd, ákveðinn í fasi og gæti hafa verið kennari, stjórnmálamaður eða mögulega blaðamaður. Sennilega á svipuðum aldri og ég, orðinn a.m.k. sextugur.
Á meðan ég borðaði kökuna og drakk kaffið heyrði ég í bakgrunninum samtalið eða öllu heldur óminn af samtali því ég var með hugann við annað. Þegar kökuátinu lauk fór ég í leiðangur um búðina og endaði með nokkrar bækur í höndunum. Tvær sem ég ætlaði að glugga í og þrjár sem ég ætlaði að kaupa handa barnabarni. Þetta ferðalag mitt hafði tekið um klukkustund því margt er að skoða í Foyles og tímanum vel varið þar. Ég ákvað að setjast upp í kaffihúsið aftur og glugga í þessar tvær bækur því satt best að segja finnst mér ekki þægilegt að sitja á baklausum kolli við lestur.
Þegar upp var komið skimaði ég eftir sæti og fann autt borð. Klukkan enda að ganga 8 að kvöldi og fólk farið að koma sér heim. Um leið og ég settist sá ég hann aftur, sitjandi á sama stað, jafn einan og áður. Hvítvínsglasið var tómt.
Ég settist og hóf að lesa. Eftir um það bil 5 mínútur leit ég upp og sá að hann horfði á mig. Ég nikkaði til hans og bjó mig undir að lesa áfram þegar hann tók skyndilega til máls: „Þetta er King er það ekki?
Jú, ég varð að játa því að bókin sem ég væri að lesa væri eftir Stephen King, þann fræga mann.
„Hann er ágætur en má ég spyrja hvort þú skrifir?
„Ja, bæði og,“ svaraði ég og var ekki viss um hverju ég ætti að svara en bætti við: „Ég skrifa mest fagefni en hef verið blaðamaður“.
„Hefurðu skrifað bækur? spurði hann þá og það var greinilegt að áhuginn var vakinn. Mér fannst spurningin styrkja hugmynd mína um að hann væri blaðamaður – nú eða rithöfundur og svaraði því til að jú, ég hefði gert það.
Um hvað vildi hann vita og bætti við: „Hvar liggur áhuginn?
Ég byrjaði að svara því til að hann væri víða og ætlaði að telja upp en komst ekki lengra en að segja saga mannkyns þegar hann greip fram í fyrir mér og spurði hvaða tímabil væri áhugaverðast í mínum augum.
Það kom dálítið á mig við þetta spurningaflóð og ég reyndi að hugsa hratt. Hverju hafði ég mestan áhuga á í sögunni? Íslenskri? Heimssögunni? Ég ákvað að koma upp um þjóðernið og sagðist Íslendingur og því hafa dálítinn áhuga á sögu landsins en líka tengslum við önnur lönd.
Þetta var greinilega gott svar því hann tók til við að lýsa forfeðrum sínum, tengslum þeirra við mögulega víkinga og hvernig fjölskyldan sem að hluta til var írsk, hefði komist í gegnum tilveruna á móti öllum líkum. Langafinn bjargast úr bráðri hættu með því að þekkja til hátternis hesta, þó ólæs væri, afinn verið í hernum líkt og langafinn og að mögulega hefði langafinn verið rangfeðraður og ætti sér mun betri uppruna en ætlað var. Í bland við þetta sló hann fram fjölda írskra orða og heita og þýddi jafnóðum á ensku eða sagði enska heitið, spurði um víkinga, ættfræði, lífshætti fyrr á öldum á Íslandi og ég veit ekki hvað. Mér tókst að koma inn orði á ská af og til og sagði honum frá bókum og vefsíðum sem mögulega gætu svarað einhverjum af spurningum hans, m.a. bókina „the genetic lottery“ sem útskýrir hvernig sumir komast vel af og aðrir illa þrátt fyrir sama aðbúnað.
Þetta samtal stóð yfir í hátt í klukkustund og þegar ég gerði mig líklega til að pakka saman og fara sagði hann: „Ertu prófessor?
Ég varð að neita því en sagðist vera með doktorspróf en ekki í sögu eða bókmenntum heldur erfðaráðgjöf. Hann stóð þá upp og sagði hátt og snjallt: „Þú ættir að vera próferssor! Ég lagði ekki í að útskýra fyrir honum hvernig slíkt gerðist á Íslandi og þakkaði fyrir samtalið og fór.
Þegar ég gekk frá borðinu heyrði ég að ungur maður á næsta borði heilsaði honum og þá loks fékk ég að vita hvað hann gerði því hann spurði unga manninn hvort þeir þekktust og sá svaraði einhverju sem ég ekki heyrði en hinn sagðist hafa kennt í áratugi. Hann var sem sagt kennari en ekki veit ég hvar eða hvað hann kennir en mig grunar að mannkynssaga komi við sögu:).