
Ég bættist í hóp þeirra sem eyddi jólum á Tene, í fyrra. Að geta setið úti, gengið, farið í strætó eða bíl um allt og skoðað fallega náttúru, skemmtileg hús og menningu, allt í hásumarfötum um jól og áramót, var frábært.
Íbúafjöldi Tenerife er rétt undir milljón og erlendir gestir eru líklega um 3 milljónir á ári. Allt þetta fólk þarf að komast um og eyjan er þannig að mikið er um brekkur, oft talsvert brattar. Eigi að síður gengur strætó hratt og reglulega og er mikið notaður (kostar 1.45 evru í hann). Einkabílar, leigubílar og bílaleigubílar eru gríðarmargir. Árið 2018 voru 64.000 bílar skráðir og þeim hefur bara fjölgað.
Það vakti sérstaka athygli mína hvað það voru fá umferðarljós. Þau sáust varla nema spari. Eigi að síður gekk ágætlega að reka allt þetta vegakerfi. Ef gangandi vegfarandi stóð við gangbraut (fullt af þeim án þess að það væru amk 15 ljós allt í kring), þá bara stoppuðu bílarnir. Nú veit ég ekki hvort umferðarslys við gangbrautir eru mjög algeng á Tene og kannski einhver sem veit.
Það var ekki heldur þannig að öll umferð væri á lúshraða, bara tekið tillit til umhverfis, aðstæðna og gangandi. Talsvert af einstefnugötum reyndar en þá alltaf tvær, þannig að fólk komst í báðar áttir.
Í Reykjavík með innan við 200.000 íbúa eru umferðarljós með nokkurra metra millibili. Á Bústaðaveginum einum eru am 10 umferðarljós frá Básenda og að Miklubraut. Að jafnaði er helmingurinn samstilltur, hinn ekki sem kostar talsverðar tafir. Á Snorrabrautinni frá gatnamótum Hringbrautar eru þau 7 held ég og ekkert tillit tekið til þess hvort á þeim eru hnappar fyrir gangandi vegfarendur eða ekki (þeir ekki notaðir sem sagt). Þar er sama sagan, um helmingur ljósanna er samstilltur, svo kemur stopp.
Ljósin sem eru við enda Eiríksgötu eru brandari. Þar er sem sagt hægt að aka suður og norður Snorrabraut og niður Eiríksgötu og beygja þá suður Snorrabrautina. Þegar beygjuljósið upp Eiríksgötu kviknar, verður ljósið sem vísar norður Snorrabraut rautt og helst þannig þó engin umferð sé sem truflar.
Væntanlega er skýringin sú að þarna er gangbraut. Hún er lítið notuð og að auki er á staurnum hnappur sem ætti að vera hægt að nota til að kveikja á grænu fyrir gangandi.
Nei, það er því miður ekki hægt, frekar en á ótal mörgum öðrum ljósum við gangbrautir. Frekar er þarna rautt ljós sem tefur alla umferð um lengri tíma dag hvern – og enginn að nota gangbrautina.
Spurning af hverju verið er að fjárfesta í þessum dýru ljósum, með hnappi fyrir gangbrautarljós og svo eru þau meira og minna óvirk?
Er ekki hægt að fara betur með peningana?