
Það er eitthvað heillandi við bútasaumsbúðir. Raðir af yndislegum, ósnortnum efnum liggja á borðum og standa upp á endann í hillum. Allskonar litir og mynstur, gulur, rauður, grænn og blár. Og auðvitað blanda af þessu öllu saman.
Panelar með myndum eru sérstakur kapítuli.
Teiknaðar myndir, ljósmyndir eða eitthvað annað myndform grípa augað. Myndirnar heilla, eins og ljósmyndir gera gjarnan og hugsunin: „hmmm, hvað væri hægt að gera úr þessu? læðist að.
Svo kannski kaupir maður panelinn og þegar heim kemur klórar maður sér í skallnum yfir valinu. Í hvað er hægt að nota mynd sem er 15×15 tommur (jú, bútasaumarar þessa lands hugsa í tommum!). Hún er of stór fyrir teppi, nema teppið sé mjög stórt. Passar ekki á púða því myndin á bara ekki heima í íslensku umhverfi. Og panellinn fer upp í hillu þar sem hann er skoðaður af og til og draumar um nákvæmlega rétta verkefnið láta á sér standa.
Nema hvað. Höfundur á það til að kaupa efnisbúta sem flagga flottum myndum. Oft myndum sem sýna sólarlag, fjöll eða skóga, flotta á litinn. Það gerðist eimmitt í ferðalagi til Amish lands í haust þegar panell með fjórum lestamyndum datt í körfu. Og fór upp í hillu.
En af því höfundur er með leynda drauma um að læra einhvern tíma almennilega að sauma töskur, þó svo tilgangurinn sé ekki ljós og þegar á hólminn er komið, nennir ekki öllum smáatriðinum, var panellinn settur í það hlutverk að verða prófstykki fyrir verkefnatösku.
Taskan sem á endanum á að gera er handa vinkonu en rétta efnið er ekki til í hillunni og því bíður það. Á meðan má æfa sig og það gerði höfundur.
Útkoman var þessi risataska, nógu stór til að vista lopapeysu í prjóni. Litirnir eru fallegir og sniðið skemmtilegt en nú bíður taskan þess að nákvæmlega réttur mögulegur eigandi dúkki upp!
