
Mannfólk, líkt og margar aðrar lífverur, þrífst á samskiptum og vináttu. Samt eru ótal margir einmana og líður ekki vel vegna þess. Öðrum finnst fínt að fá að vera í friði og sækja lítt í samveru.
Einmanaleiki og vinátta hafa verið mér hugleikin hugtök um langa hríð. Ég hef velt fyrir mér hvernig fólk eignast vini, hvernig það heldur þeim, af hverju sumir eiga auðvelt með að safna að sér vinum og kunningjum á meðan aðrir (án þess að vilja það) eru meira og minna einir.
Væntanlega eru margir þættir sem stýra þessu en eitt er að muna að ef maður hefur ekki samskipti sjálfur, þá er ólíklegt að aðrir sæki eftir samskiptum við mann til lengdar.
Það er nefnilega þannig (hvað sem skáldsögum um riddara á hvítum hesti líður) að maður verður að leggja dálítið í vináttu ef hún á að halda.
Hugskeyti duga skammt og hversu duglegur sem maður er að kommenta á fésbókarsíðu viðkomandi, dugar það ekki til á sama hátt og bara að taka upp símann eða boða til hittings.
Allar rannsóknir (meira að segja alvöru rannsóknir) segja að góð vinátta, góð samskipti (og mikil) við aðra lengi lífið og auki ánægjuna.
Ekki bíða með að hringja eða fara. Maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér og kannski…verður bara of seint að heyra í viðkomandi.